149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:12]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þessar mínútur til að spyrja hæstv. ráðherra örlítið út í framlög til háskólastigsins annars vegar og hins vegar kostnað við nýtt LÍN-kerfi árið 2021.

Á þeim fimm árum er hækkunin á framlögum til háskólanna undir 1% að meðaltali. Afar ólíklegt er að það nái því meðaltali OECD sem rætt er um í fjármálaáætlun og lofað hefur verið margoft og er þá gert ráð fyrir því að hér sé um raunhækkun að ræða og aukið fjármagn fylgi til að halda í við almennar verðlagsbreytingar á fjárlögum. Í þessum framlögum eru líka peningar sem eiga að fara í ákveðnar rannsóknir og fjárfestingar svo að ekki fer allt beint í rekstur háskólanna. Það vantar mun meira inn í reksturinn til að skólarnir verði samkeppnishæfir. Eins og stendur stöndum við langt að baki Norðurlöndunum í framlögum til háskólanna.

Mér þætti fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra fjalla um hvernig ætlunin sé að standa við fyrirheit um að ná meðaltali OECD í framlögum til háskólanna.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í áform um nýtt lánasjóðskerfi. Hvers vegna er lækkun við kostnað við það árið 2021? Og mikilvæg spurning: Verður kerfið fjármagnað með hærri vöxtum á lán til þeirra stúdenta sem ekki munu njóta námsstyrkja?