149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær spurningar er beinast að háskólastiginu. Ég vil fyrst nefna að við erum að tala um alveg gríðarlega aukningu á fjármunum sem renna til háskólastigsins. Hv. þingmaður spyr út í þá og segir að þeir muni líklega ekki duga til að ná OECD-meðaltalinu. Við berum mjög miklar væntingar til þess að þeir auknu fjármunir muni duga til. Ef þeir gera það ekki þurfum við hreinlega að bæta í. Ég hef sagt að þetta ráðuneyti sé fjárfestingarráðuneyti. Þetta mun skipta sköpum um það hvort fólk vilji búa hér á landi.

Ég vil líka benda á að það hafa verið umtalsverðar deilur um hvort við séum hreinlega að ná þessu meðaltali eða ekki. Þess vegna höfum við aukið samstarf við OECD. Ég vil hreinlega fá OECD í lið með okkur til að skera úr um það hvort við séum að ná því. Við þurfum auðvitað að bera okkur saman við önnur ríki og hagvöxt og hvernig hann er að þróast. Við fáum OECD-tölurnar jafnvel fyrir árið 2023 sem mér finnst svolítið langur tími og mér finnst mikilvægt að vita, og hef viljað upplýsa þingið um það, hvort möguleiki sé á því að við náum meðaltalinu. Þess vegna upplýsi ég það hér að við köllum eftir samstarfi við OECD, til að fá það á hreint.

Varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna erum við að hanna og búa til kerfi sem tryggir að námsmenn fái alltaf bestu kjör ríkissjóðs Íslands á lánamörkuðum. Ef ríkissjóður fjármagnar sig á 132 punktum, eins og hann gerir í dag, njóta námsmenn þess ásamt álagi upp á 0,5. Ef ríkissjóður fjármagnar sig á 100 punktum njóta námsmenn þess.