149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Það vekur athygli mína að framlög til menningar og lista lækka um milljarða á því tímabili sem um ræðir. Það er ekki alveg ljóst hvar borið er niður þegar fjármálaáætlun er lesin. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Helstu breytingar á útgjöldum málefnasviðsins skýrast af aukinni aðhaldskröfu á árinu 2022, breytingu á sértekjum á árinu 2020 og breyttri dreifingu á framlögum til máltækniverkefnis. Á tímabilinu er gert ráð fyrir fjármagni til að efla söfn og faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Auk þess sem tímabundið framlag verði veitt til fimm ára til Barnamenningarsjóðs Íslands.“

Gæti hæstv. ráðherra skýrt örlítið betur fyrir mér hvernig háttað er breytingu á sértekjum árið 2020 og hvernig þessi aukna aðhaldskrafa mun birtast því að tekið er sérstaklega fram að efla eigi söfn og sjóði listamanna, sem vissulega er gott? Með öðrum orðum: Hvar verður skorið niður?