149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aftur að lánasjóðnum. Nýju breytingarnar verða þannig að það verður 30% niðurfelling á höfuðstóli þegar námsmenn klára nám á tilsettum tíma og þá miðum við ekki við nákvæmlega þrjú ári ef fólk er að klára BA-gráðu eða BS-gráðu heldur sveigjanleg námslok, þrjú til fjögur ár. Við erum annars vegar að tala um bestu kjör sem ríkissjóður hlýtur hverju sinni og svo líka beina niðurfellingu. Ég vil líka nefna að fram kemur að unga fólkið okkar fer mun minna skuldsett inn í lífið.

Varðandi menninguna kemur máltækniverkefnið þar inn sem skýrir að hluta til lækkunina. Ákveðnar stofnanir hjá okkur gera ráð fyrir frekari sértekjum. Við erum ekki að fara í neinn niðurskurð heldur höldum áfram að auka fjármuni til menningar. Ég verð að segja (Forseti hringir.) að stuðningur okkar við bókaútgáfu skiptir gríðarlegu máli fyrir það sem við erum að gera.