149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:18]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að lýsa ánægju minni með margt sem er á verksviði hæstv. ráðherra. Mig langar kannski fyrst að beina sjónum mínum að verk- og iðnnáminu og fagna nýrri forgangsröðun hæstv. ráðherra sem birtist í því að þar er fyrsta markmiðið orðið að hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi og að kynjadreifing verði jafnari. Þetta er mjög gott markmið. Vegna þess langar mig að beina nokkrum spurningum að hæstv. ráðherra.

Fyrst nefndi hæstv. ráðherra brotthvarf úr framhaldsskólum. Telur ráðherrann brotthvarfið tengjast því að einhverju leyti hve fáir sækja í iðn- og verknám? Ég veit að það hlutfall hefur hækkað en það virðist enn þá vera þannig í okkar samfélagi í dag að nemendum er beint í stúdentspróf, bæði vegna viðhorfs í garð iðnmenntunar sem og vegna þeirra sem eiga í einhverjum erfiðleikum með frekari menntun að loknu prófi. Mig langar að heyra um það frá henni.

Einnig vil ég spyrja um meiri sveigjanleika í kerfinu milli skóla og stiga, líkt og kemur fram í frumvarpi sem ég hef lagt fram. Tæknin tekur stöðugum framförum og menntakerfið okkar má ekki vera þar eftirbátur. Störf framtíðarinnar munu breytast. Það mun verða meiri þörf fyrir samkeppnishæfni og áskorun um að viðhalda henni, fá endurmenntun og aðgengilegt nám á seinni stigum í lífinu og í atvinnulífinu og að fjölbreytt val sé í boði fyrir einstaklinga með mismunandi bakgrunn.

Að lokum langar mig að heyra um námslánakerfið, sem tengist líka verk- og iðnnáminu. Ráðherra hefur talað um ákveðna hvata fyrir kennaranema um niðurfellingu að loknu námi á réttum tíma. Er eitthvað í því sem hún boðar í frumvarpinu um námslánakerfið sem tengist iðn- og verknámi, (Forseti hringir.) fá þeir nemar niðurfellingu eða þennan styrk að loknu sínu námi?