149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nefna það líka og skýra það að allt nám sem er lánshæft, þá á ég við iðn-, starfs- og tæknigreinar, að viðkomandi aðilar munu fá niðurfellingu um 30%. Það er í raun og veru gríðarlegur hvati á framhaldsskólastiginu. Bara til að skýra það betur út.

Hvað varðar fjölmiðlana þá stöndum við á miklum tímamótum og það á ekki aðeins við um fjölmiðlun á Íslandi heldur um allan heim vegna tækniframfara og annarra þátta. Nú erum við að taka fyrsta skrefið varðandi stuðningskerfi til að styðja við einkareknu fjölmiðlana. Ég hef alltaf séð það þannig að nauðsynlegt sé að taka það skref. Mér finnst mjög brýnt að ef við ætlum að fara í einhverjar ráðstafanir gagnvart Ríkisútvarpinu þá verði þær ekki þannig að þær muni skerða þjónustu þess að nokkru leyti. Við setjum, eins og ég skil það, (Forseti hringir.) minna fjármagn til okkar ríkisútvarps en gerist á hinum Norðurlöndunum. Ég sé ekki breytingu í þá veru.