149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður deilum áhuga á stafrænum smiðjum. Ég vil taka fram að jafnvel þótt þær séu ekki í kaflanum um framhaldsskólastigið þýðir það ekki að við setjum ekki fjármuni í þær. Þetta er áætlun og mjög mikið sem við nefnum ekki sérstaklega í fjármálaáætluninni sem er engu að síður fjármagnað.

Eins og hv. þingmaður tekur líklega eftir er framhaldsskólastigið býsna vel fjármagnað. Við horfðum upp á styttingu á framhaldsskólastiginu úr fjórum árum í þrjú en hins vegar höldum við áfram að auka fjármuni í framhaldsskólastigið. Ég sé fyrir mér og legg mikla áherslu á það sem mennta- og menningarmálaráðherra að við horfum til þess að auka þekkingu og setja meiri fjármuni í tæknigreinar, stafrænar smiðjur og iðn- og starfsnám, vegna þess að þar þurfum við að gera betur.

Ég ítreka að jafnvel þótt stafrænar smiðjur séu ekki nefndar í ríkisfjármálaáætlun er það ekki svo að ekki séu settir fjármunir í þær. Ég hef verið dugleg að heimsækja stafrænar smiðjur og veit að þær eru mjög vinsælar og vel sóttar og einmitt til þess fallnar að auka áhuga á nýsköpun og tækni.

Ég held að hv. þingmaður þurfi því ekki að verða fyrir vonbrigðum þótt þeirra sé ekki getið. Ég skil hins vegar athugasemdina og vil taka tillit til hennar. Við eigum eftir að kynna fjárlög fyrir árið 2020 og þá munum við sjá betri og nákvæmari útlistun á því hvað er gert á hverju skólastigi fyrir sig.