149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þá verð ég fyrir vonbrigðum á annan hátt, á þann formlega hátt sem ég hef talað um varðandi fjármálaáætlun yfirleitt. Hérna á að setja fram stefnu stjórnvalda til fimm ára og gera grein fyrir helstu kostnaðarbreytingum, kostnaðaráætlun og kostnaðarmati við þær aðgerðir sem farið er í. En eins og hæstv. ráðherra nefnir er ákveðinn kostnaður ekki nefndur.

Það er kannski ekki hægt að fara út í alger smáatriði en þetta er stefnan sem fjárlög byggja á. Í fjárlögum og í fjárlagavinnunni eigum við að sjá merki um útfærslu á fjármálaáætlun. Það á ekkert að koma okkur á óvart í fjárlögunum miðað við það sem er sett fram í fjármálaáætlun.

Ég segi því aftur að ég hlakka til að sjá þá áherslu og það fjármagn sem þarf í uppbyggingu á sviði stafrænna smiðja — þá í fjárlögum — og kvarta (Forseti hringir.) enn sárar yfir því hversu hryllilega léleg fjármálaáætlunin er í alvöru.