149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég að vera ósammála hv. þingmanni og segja: Það er búið að leggja talsverða vinnu í ríkisfjármálaáætlunina og í að forgangsraða. Það er augljóst varðandi framhaldsskólastigið að markmið okkar eru mjög metnaðarfull. Við viljum fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi og við forgangsröðum fjármunum akkúrat í þá átt. Við erum að senda þau skilaboð að við viljum sjá meiri fjármuni inn í til að mynda stafrænar smiðjur. Við sjáum líka, hv. þingmaður, að við förum úr 30 milljörðum kr. árið 2017 í 35 milljarða kr. á þessu tímabili, þrátt fyrir að búið sé að stytta námið. Það er svigrúm á framhaldsskólastiginu til að gera betur hvað varðar þá þætti.