149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er sláandi sem átt hefur sér stað, þessi fækkun á lánþegum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég held að skipti máli. Ég held til að mynda að bara með því að búið er að stytta framhaldsskólann búi ungt fólk lengur heima hjá foreldrum sínum. Ég held í öðru lagi að staða húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu hafi líka valdið því að ungt fólk er lengur heima hjá sér. Og svo í þriðja lagi, sem mér finnst skipta mjög miklu máli, er fólk, sem hefur verið að greiða af lánum sínum, auðvitað að vinna, það vinnur í 12 mánuði en fær greitt í 11 mánuði. Ég held að sú staðreynd verði til þess að mjög margir foreldrar hvetji hreinlega börnin sín til að taka ekki lán hjá lánasjóðnum, og þau búa þá lengur heima.

Ég held að það sé ekki jákvæð þróun. Þess vegna erum við með algjöra kerfisbreytingu í farvatninu sem miðar að því að veita styrk með börnum, í stað þess að námsmenn með börn á framfæri taki lán. Og til að upplýsa hv. þingmann um það erum við líka að skoða ábyrgðarkerfið. Það er ekki komin niðurstaða í það. En auðvitað er nú lag að fara í slíkar breytingar, út af þessari þróun og vegna þess að við erum búin að setja inn mikla fjármuni sem búið hafa til mikið handbært fé.

Ég nefni sem dæmi að par sem klárar nám, segjum læknisfræði, 30, 31, 34 ára, myndi þá líklega skulda helmingi minna í nýja kerfinu, raungerist það.