149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svörin og verð að segja að þær breytingar sem boðaðar eru á LÍN hljóma mjög jákvæðar. En það fer allt eftir því hvernig við náum að útfæra það. Þess vegna er gott að þetta hefur verið unnið náið með stúdentahreyfingunni og nánar en á síðustu árum. Við skulum bara halda því áfram, bæði innan ráðuneytis og þegar það kemur síðan til þingsins.

Ráðherrann nefndi hér barnalánin. Þá detta mér í hug tölurnar frá Eurostudent sem talað er um í fjármálaáætluninni og sýna fram á sérstöðu íslenska stúdentahópsins. Mig langar að heyra aðeins um það hvernig við getum styrkt alþjóðavíddina því að þar er líka ákveðin sérstaða. Okkar stúdentar sækja kannski ekki nógu mikið til útlanda og þetta ætti jafnvel sérstaklega við um kennaranema því að það gæti auðgað skólana í framtíðinni.

Svo langar mig aðeins að spyrja rétt að lokum um eina brokkgengustu framkvæmd síðari tíma á Íslandi, sem er Hús íslenskunnar. (Forseti hringir.) Hvaða tímalínu sjáum við fyrir okkur þar? Því að það eina sem ég sé í áætluninni er að henni verði hliðrað enn á ný vegna fyrirsjáanlegra tafa.