149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra og ég eigum það sameiginlegt að bera mjög hag starfs-, verk- og tæknináms fyrir brjósti og ráðherra hefur verið óþreytandi að tala fyrir þeim málaflokki. Mér finnst að sumu leyti að það séu gamalkunnug stef á ferðinni sem hafa verið spiluð í áratugi um að reyna að vekja áhuga ungs fólks og laða það til þessa náms. Það hefur skilað því miður, eins og við vitum, sorglega litlum árangri.

Ég sakna þess svolítið að sjá ekki meiri metnað í áætluninni þar sem fjallað er um að gera verknám, starfsnám, að fyrsta flokks námi. Það eru ekki sett nein markmið um að það verði fyrsta flokks nám. Það eru ekki sett nein markmið um að húsakostur sé fyrsta flokks, námsefnið sé fyrsta flokks, tækjabúnaður sé fyrsta flokks, það sé reynt að laða til kennslu á þessum vettvangi hæfustu kennaranna. Ég held að það sé tómt mál að tala um að við náum þeim árangri sem við viljum öll ná ef við búum ekki þannig um hnútana að öll umgjörð þessa náms sé til fyrirmyndar. Hún er það ekki, því miður, hjá okkur í dag.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því hvort mér yfirsjáist eitthvað í áætluninni eða hvort það sé virkilega þannig að ekki séu stigin nein alvöruskref í þessa veru. Það dugir ekki að kynna og hvetja til náms ef það er ekki ljóst í verki og allir sjá að verið sé að vísa fólki til náms við bestu hugsanlegu aðstæður og borin full virðing fyrir því námi. Það sé alvöru.