149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir gott innlegg í umræðu um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Ég vil hrósa henni fyrir margt, þarna er margt mjög gott og þarft og eins og ég lít á það og skynja er greinilegt að hún leggur sig alla fram. Auðvitað er ekki hægt að gera allt í einu en ég hef sérstakar áhyggjur af brotthvarfi rúmlega 1.000 nemenda úr grunnskóla sem skila sér ekki í kennslu. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af sjálfsskaða unglinga. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af vanlíðan, kvíða. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af fátækt barna í grunnskólum. Þetta eru allt saman risastórir þættir sem ég tel, þótt við séum búin að ræða þá við félags- og barnamálaráðherra, að gætu heyrt undir hæstv. menntamálaráðherra í samstarfi við og með vilja sveitarfélaganna.

Þegar við tölum um vanlíðan og óhamingju barnanna okkar og horfum upp á furðulega neikvæða þróun vil ég benda á að við eigum lög — ég er mikið fyrir gleðina — um verkefni málaflokksins. Um hann gilda t.d. lög nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þá er verið að tala um tónlistarskóla í samstarfi við sveitarfélögin á framhaldsskólastigi. Mér finnst oft horft fram hjá rótinni sem er börnin okkar, strax þegar þau hefja skólagöngu sína. Er ekki mögulegt að fara að vinna í því að gefa öllum börnum kost á því, burt séð frá efnahag, að læra á hljóðfæri?