149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum málaflokkum og þeim atriðum sem hún hefur áhyggjur af í íslensku skólakerfi.

Ég ætla að byrja á því að ræða um vellíðan — eða vanlíðan. Það kemur í ljós þegar við berum okkur saman við önnur ríki að um 90% af nemendum í íslensku skólakerfi líður vel og 80% af þeim bera mikið traust til kennarans. Þetta eru mjög góðar tölur. Hins vegar eru þarna 10% sem líður ekki vel og ekki ólíklegt — ég held að það sé ekki háskalegt af mér að nefna það hér — að þetta séu sömu krakkarnir sem finna sig ekki í skólakerfinu og eru þá líklegri til að hverfa frá námi á framhaldsskólastiginu.

Það sem við erum að gera er í fyrsta lagi að efla stuðning við þá nemendur á framhaldsskólastiginu, því að það heyrir undir mig, með talsvert afgerandi hætti eins og ég nefndi áðan, með því að fara úr 20 milljónum í 60 milljónir. Við nýttum það fjárhagslega rými sem var fyrir hendi einmitt í þágu þeirra sem við teljum að séu í mestri þörf. Forgangsröðunin er skýr.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni varðandi aðgengi að tómstundum, til að mynda að tónlist eða íþróttum, að það er rosalega mikilvægt að við séum með eins gott og jafnt aðgengi og við mögulega getum. Það sýnir sig að þau börn sem stunda íþróttir eða tónlist eru ólíklegri til að hverfa frá námi og þau sýna líka betri námsárangur. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta sé stórt atriði og við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu tökum þátt í að efla þá þætti.