149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Það er óneitanlega ánægjulegt að heyra að börnin okkar skuli vera svona glöð í skólanum — 90%. Þetta kemur mér verulega á óvart og mér þætti vænt um að fá að vita við hvað er miðað og hvernig það er fundið út. Það er svo sannarlega búið að láta í veðri vaka að svo sé ekki, sérstaklega þegar við vitum að 10–15% barna búa við fátækt samkvæmt skýrslu t.d. Kolbeins Stefánssonar.

Það er satt sem hæstv. menntamálaráðherra segir að gríðarlega miklu skiptir að börnin okkar eigi kost á því að sinna tómstundum, hvort sem það eru íþróttir eða tónlistarnám, og finna eitthvað við sitt hæfi burt séð frá efnahag. Það gleður mig afskaplega mikið ef mennta- og menningarmálaráðuneytið er virkilega að taka höndum saman með sveitarfélögunum við að reyna að sporna við allri mismunun.