149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þá niðurstöðu sem ég vitnaði í má finna í rannsókn sem rannsóknarsetur í tómstundafræðum í Háskóla Íslands framkvæmdi á dögunum. Mér þótti mjög vænt um að þetta var niðurstaðan en það breytir því ekki að þarna er hópur, um 10% barna, sem gæti liðið betur. Við þurfum auðvitað að huga að honum.

Ég sem mennta- og menningarmálaráðherra hef í samstarfi við félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra unnið að því að efla sálfræðiþjónustu fyrir nemendur á framhaldsskólastig. Það felst líka í því að efla heilsugæsluna á öllu landinu, til að auka aðgengi að slíkri þjónustu. Það er hins vegar svo að jafnvel þótt um 90% líði vel í skólakerfinu okkar er aukning hjá þeim sem líður ekki vel. Það er áhyggjuefni, ég er sammála því. Það tengist því sem m.a. hefur verið nefnt, að það sé hreinlega aukinn samanburður (Forseti hringir.) kominn inn í kerfið okkar í tengslum við samfélagsmiðla. Við verðum að skoða það á mjög ábyrgan og uppbyggilegan hátt.