149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:53]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. ráðherra og segja að það er ekkert háskalegt að taka þá umræðu sem fór fram áðan heldur er nauðsynlegt að taka hana og nauðsynlegt að bregðast við henni.

Það þarf að laða fleiri einstaklinga að námi í menntunarfræðum. Á leikskólastigi stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að fá fleiri karla, á grunnskólastiginu er það jafnvel sama áskorun ásamt því að fá fleiri sem vilja sérhæfa sig í raungreinum, tæknigreinum og iðngreinum. Á framhaldsskólastigi stöndum við frammi fyrir svipuðum áskorunum og í grunnskólanum.

Ég fagna boðuðum aðgerðum vegna iðngreina, sérstaklega því að horfa eigi á yngra skólastig. Ég veit að það er oft „dilemma“, ef ég má sletta, á milli grunnskóla- og framhaldsskólastigsins. Ég heyri að hér er hafið samtal um að fara þurfi neðar í grunnskólann til að efla áhuga.

Ég tók eftir því að ráðherra sagði að ungt fólk ætti helst að velja sér nám fekar en að velja sér skóla. Það finnst mér mjög gott.

Mínar spurningar snúa helst að því hvernig hæstv. ráðherra ætli að laða að fleiri sem vilja fara í nám á sviði iðn- og tæknigreina á háskólastigi. Ég vil líka segja í því samhengi að ég tel að eitt leyfisbréf myndi sannarlega liðka fyrir því að maður sæi fram á að geta síðan valið sér í auknum mæli starfsvettvang. Ég fagna einnig tilkomu rafrænu ferilbókanna. (Forseti hringir.) Þær gætu meira að segja nýst innan heilbrigðiskerfisins.