149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eitt af því sem við vorum að gera á síðasta ári var að reyna að sjá hverjar helstu skýribreyturnar væru, þ.e. hvernig við gætum skýrt að mun fleiri fara í þessar greinar til að mynda í Noregi og á landsbyggðinni.

Það er þrennt sem vekur athygli og við erum að vinna í. Það er í fyrsta lagi að mjög gott samstarf er á milli grunnskólastigsins og framhaldsskólastigsins. Grunnskólinn hefur oft mjög gott aðgengi að viðkomandi framhaldsskóla og þeim tækjum sem þar eru og krakkarnir geta prufað sig áfram. Þetta gerist nokkuð snemma á grunnskólastiginu. Valgreinarnar eru opnar og nemendur geta skoðað það sem er í boði. Í öðru lagi má segja að grunnskólinn sé duglegur að kynna það nám sem er í boði fyrir nemendum skólans og er skólinn mjög virkur í því á fyrri stigum. Í þriðja lagi er lögð mikil áhersla á að kynna það sem er í boði fyrir foreldrum, sér í lagi mæðrum því að mæður hafa, segja rannsóknir, mikið um það að segja hvað er valið.

Við sjáum hlutfallið hjá þeim sem hafa tileinkað sér þá aðferðafræði. Ég nefni til að mynda Fjarðabyggð þar sem mér skilst að hlutfall þeirra sem fara í iðnnám sé um 33%. Þetta eru allt aðrar tölur en við sjáum annars staðar á landinu. Þá vinnum við auðvitað með þá þætti sem ég nefndi. Við höfum verið í umtalsverðu samstarfi við (Forseti hringir.) Verkiðn og Samtök iðnaðarins í því máli.