149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég nefndi nokkur atriði áðan og vil halda áfram og nefna í fjórða lagi að það er mjög sterk tenging á milli atvinnulífsins og viðkomandi framhaldsskóla. Það er tenging við grunnskóla, það er tenging við heimili og tenging við atvinnulífið og með því að gera þetta á þann hátt næst árangur.

Ég hef verið í sambandi við aðila í atvinnulífinu og í framhaldsskólum þar sem atvinnulífið vill koma að og aðstoða og koma með tæki inn í framhaldsskólann. Mjög oft fara þessi ungmenni í starfsnám og vinna hjá viðkomandi fyrirtækjum og fyrirtækin vilja koma að því að bæta tækjabúnað.

Ég legg gríðarlega áherslu á að öll fjárfesting í því komi fyrst og síðast frá hinu opinbera en í góðu (Forseti hringir.) samstarfi við atvinnulífið.