149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fremsta markmið og áhersla fjármálaáætlunarinnar varðandi framhaldsskóla er að hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi og að kynjadreifing verði þar jafnari, eins og fram hefur komið í umræðunni. Ég er sammála því að þarna eigi áherslan að liggja, ekki síst vegna þess að fyrirsjáanlegt er að með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar verði verulegar breytingar á vinnumarkaði sem geri kröfur um þróun starfsnáms og öflugra samstarf stjórnsýslu, skóla og atvinnulífs, líkt og fjallað er um í textanum í áætluninni. Ég vil taka undir það sem stendur þar að það sé mikil áskorun að fjölga nemendum í starfs- og tækninámi og að það verði ekki einungis gert með því að vekja athygli og áhuga á náminu, þó að það sé vissulega krefjandi verkefni, heldur þurfi að leggja grunn að öflugu, faglegu samstarfi á milli skólastiga. En starfs- og tækninám er dýrara en bóknám. Ef á að gefa í þurfa peningar að fylgja. Í áætluninni haldast fjármunir til framhaldsskólastigsins nánast óbreyttir út áætlunartímann.

Hvernig ætlar hæstv. menntamálaráðherra að láta dæmið ganga upp ef markmiðið um fleiri starfs- og tækninemendur gengur eftir? Nemendaígildi í framhaldsskólunum eru nú 17.784 og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um áætlanir um nemendafjölda næstu fimm árin. Eru þær til? 16 ára unglingum fjölgar samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni um 600 á áætlunartímanum. Nú eru 16 ára nemendur 24% af öllum framhaldsskólanemum. Ef hlutfallið helst fjölgar nemendum á framhaldsskólastigi á áætlunartímabilinu, eða til 2024, um 2.300 — en fjármagnið eykst ekki, samkvæmt áætluninni.