149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Árgangarnir sem eru að koma inn í skólann eru að stækka en það má vera að einhverjum öðrum fækki á móti. En 16 ára unglingum er alla vega að fjölga. Auðvitað verður málið tekið upp við næstu áætlun reynist svo vera að nemendum fjölgi, vona ég.

Það er annað verðugt markmið sem raðað er framarlega vegna starfsemi framhaldsskólanna og það er að fjölga þeim nemendum sem ljúka námi í framhaldsskóla, þ.e. að brottfall minnki. Framhaldsskólinn hefur glímt við þetta vandamál í áraraðir með litlum árangri þó. Þarna þarf sannarlega að taka á og skólarnir hafa fengið styrki til að vinna með sínum hætti gegn brottfallinu en því miður hafa það verið of lágar upphæðir. Sú aðgerð sem margir hafa bent á að muni skila árangri er aðgengi framhaldsskólanemenda að sálfræðingum. Umræða um slíkt kom m.a. fram á fundinum Geðheilbrigði ungs fólks sem haldinn var í Kastljóssþætti í gær. Hálf staða sálfræðings kostar um 4 millj. kr. Er til nægilegt fjármagn til þess að ráða sálfræðinga í alla framhaldsskóla landsins og láta það þannig verða þátt í því að minnka brottfall?