149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:07]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Nýliðun í kennarastéttinni hefur gengið brösuglega á síðustu misserum. Kennarastéttin er að eldast og yngri kynslóðir sýna faginu takmarkaðan áhuga. Ástæður þess kunna að vera fjölmargar en ekki síst telur sú sem hér stendur hluta ástæðunnar vera að starfið sjálft þykir álagsmikið og að kröfur til kennara eru að síaukast, nú síðast í samhengi við hina margumræddu fjórðu iðnbyltingu.

Það er mikilvægt að kennarar fái að viðhalda sínum neista í starfi, finna fyrir hvatningu og eigi greiðan aðgang að uppfærslu og endurmenntun til að geta mætt sívaxandi kröfum og hröðum samfélags- og tæknibreytingum. Þeir þurfa tækifæri og stuðning til þess að hafa það sjálfstraust og þá starfsánægju sem þarf til að aðlagast breyttum kennsluháttum og aukinni þverfaglegri hugsun og nálgun í skólastarfi á öllum skólastigum.

Veruleikinn er sá að kennurum er falið það hlutverk að mennta framtíð okkar út frá tiltölulega nýframkomnum stefnum, komnum af umræddri iðnbyltingu. Þar má nefna að kennarar finna sig allt í einu skuldbundna til að kenna nemendum sínum t.d. forritun. Til að gera þeim það kleift þarf að vera til staðar öflugt endurmenntunarrkerfi innan menntakerfisins sjálfs. En í útgjaldaramma málasviðsins á bls. 350 og 351 fæ ég ekki betur séð en að upphæðin sem ætti að koma til móts við einmitt þetta fari lækkandi.

Ég beini því þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort í núverandi fjármálaáætlun sé eitthvert svigrúm í raun til að hægt verði að mæta þessum kröfum menntakerfisins. Ég vil benda á að þetta atriði tengist mjög rökrétt því máli sem samflokksmaður minn, Björn Leví Gunnarsson, kom inn á í tölu sinni um stafrænar smiðjur. Þetta fer vel saman.