149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina sjónum okkar að mikilvægi kennarans í íslensku menntakerfi og í öllum menntakerfum. Það er ljóst að þegar við erum núna að móta menntastefnu til ársins 2030 leggjum við mikla áherslu á að bæta allt starfsumhverfi kennara vegna þess að það eru þeir sem bera uppi kerfið og það eru þeir sem leggja grunninn að öllum öðrum störfum.

Þess vegna höfum við verið að kynna aðgerðir til að fjölga kennaranemum og fyrsti áfanginn var núna kynntur. Hann er að fullu fjármagnaður í ríkisfjármálaáætluninni og það koma nýir fjármunir, í kringum 250 milljónir, á hverju ári. Það sem við sjáum og ég vil nefna er að það á sér stað mjög mikil fækkun eða minni eftirspurn eftir því að fara í kennaranámið eftir að það var lengt.

Ég vil alls ekki að við förum að stytta það til að fá fleiri inn í námið. Þess vegna erum við að kynna að lokaárið verði launað starfsnám. Mótun þessara tillagna hófst fyrir dágóðum tíma, áður en ég varð mennta- og menningarmálaráðherra, og við tókum þær og unnum það hvernig við myndum framkvæma þær í mjög góðu samstarfi við kennaraforystuna, við Samband íslenskra sveitarfélaga, við menntavísindasviðin, bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, til þess að hugsa: Heyrðu, hvernig getum við gert þetta þannig að við náum að snúa við þessari þróun?

Annað sem ég vil nefna er að nú erum við að bjóða námsstyrk í fyrsta sinn fyrir þá sem klára nám sitt vegna þess að brotthvarfið úr kennaranáminu er í kringum 50%. Vegna þess að það er svo mikil eftirspurn eftir kennurum og þess vegna klára þeir ekki námið — en það er brýnt að gera það.

Ég ætla að koma að starfsþróun í næsta svari.