149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:12]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja þingheim fyrir fram afsökunar á því hversu hratt ég mun tala hér til að nýta tímann sem best.

Fram kemur í fjármálaáætlun að fram undan sé almenn endurskoðun á námslánakerfinu hjá ráðuneytinu sem mun leiða af fyrirhuguðu frumvarpi haustið 2020. Í ljósi þeirrar fyrirhuguðu endurskoðunar á námslánakerfinu langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki rétt og nauðsynlegt að hækka frítekjumark námsmanna sem nú stendur í tæpri milljón. Það er alveg ljóst að það er allt of lítið. Eins skýtur skökku við að svo tekjulágt fólk eins og námsmenn gjarnan eru þurfi að búa við svo lágt frítekjumark.

Eins og fram kemur í fjármálaáætluninni sjálfri er oft um barnafólk að ræða og samanborið við erlenda námsmenn eru íslenskir námsmenn líklegri til þess að vera foreldrar eða verða það.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort áhersla verði lögð á þetta atriði í þeirri endurskoðun sem fyrirhuguð er — og ef svo er, hvort hæstv. ráðherra geti áætlað hvenær sú hækkun frítekjumarksins gengi í gegn.