149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það verður seint hægt að segja að ég sé mikill aðdáandi þessarar ríkisstjórnar en ég skal alveg viðurkenna að ég er að verða ágætisaðdáandi þessa ráðherra. Hún hefur verið talsvert atorkusöm frá því að hún tók við embætti og stendur algerlega undir væntingum þar og ég þekki af afspurn að hún hefur yfirleitt verið mjög metnaðarfull alls staðar þar sem hún hefur komið við. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með mörgum góðum verkefnum hjá hæstv. ráðherra og flestum bara, ef frá er talin þessi tilhneiging Framsóknarmanna til þess að þurfa að niðurgreiða allt. En tölum um það síðar.

Það sem ég hef hins vegar dálitlar áhyggjur af þegar kemur að háskólastiginu og fjármálaáætlun er að þar sé hæstv. ráðherra að lofa upp í ermina á sér. Við getum sagt að einn meginþunginn í markmiðasetningu málefnasviðsins sé að við munum ná meðaltali OECD-ríkjanna á gildistíma áætlunarinnar. Það séum við að gera á nánast flötum framlögum ef svo mætti að orði komast.

Það sem ég staldra við er tvennt. Ég sakna þess, sem má reyndar gagnrýna mjög víða í þessari fjármálaáætlun almennt, að okkur er ekki gefið grunnviðmiðið, þ.e. hver staðan er í dag, hvar við erum stödd. Okkur er heldur ekki gefin nein tala um fjöldaþróun t.d. nemenda á háskólastigi á móti krónutölunum sem lagðar eru inn, af því að viðmiðið er jú framlag á hvern nemanda. Þess vegna myndi ég mjög gjarnan vilja fá frekari upplýsingar frá ráðherra. Hvernig er nemendafjöldinn að þróast á gildistíma áætlunarinnar? Mér telst til að alla vega framan af viðmiðunartímabilinu hljóti nemendum á háskólastigi að fjölga nokkuð af því að við erum að taka í gegn tvöfaldan árgang kannski á tveggja ára tímabili eða svo vegna styttingar á stúdentsprófi. Það væri því áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra: Hvernig eru tölurnar á gildistíma áætlunarinnar að þróast?