149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að styðja margt af því góða sem við erum að reyna að gera. Auðvitað erum við alltaf að reyna að setja markið svolítið hátt hvað varðar menntun og menningu. Ég er mjög staðföst í þeirri trú minni að ef við ætlum að auka lífsgæði á Íslandi þá þarf aðgengi að menntun og það hvernig við forgangsröðum að vera nokkuð skýrt. Ég held að það sem muni skipta mestu máli til framtíðar sé að hér séu í boði góð störf og að menntun nýtist í atvinnulífinu.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að ég er sammála honum. Ég held að við ættum að bæta ríkisfjármálaáætlunina og sýna fram á það með skýrum hætti og nákvæmlega hvernig framlögin þróast á hvern nemanda. Ég vil líka taka fram og mér finnst það skipta máli að það komi skýrt fram að við eigum að vinna að þessu markmiði. Við settum okkur þetta markmið en sumir segja: Af hverju eruð þið að setja það markmið að ná þessu OECD-meðaltali? Mér fannst það skipta máli og ég tel að við eigum ekki einungis að ná því heldur eigum við að vera líka þar sem Norðurlöndin eru. Við erum að gera eins vel og við mögulega getum til að auka framlagið inn á háskólastigið. Það mun svo koma í ljós hvort það takist nákvæmlega en mér skilst að við séum nokkuð nálægt því. Ég þarf frekari sönnun á því og þess vegna erum við að leita eftir samstarfi við OECD til að skýra það betur.

Varðandi framsetninguna er ég sammála hv. þingmanni að við getum bætt hana. Ég vil líka taka fram annað sem ég tel mikilvægt en það er að við sjáum hvernig þróunin er hjá þeim sem eru aðfluttir, þeim sem koma til Íslands, og þeim sem eru brottfluttir, þ.e. út frá menntunarstigi. Núna í dag er ég að senda bréf á hagstofustjóra þar sem ég vil fá betri tölfræði um þetta vegna þess að það segir okkur svolítið um hvernig hagkerfið og efnahagslífið er að þróast.