149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu tókst hæstv. ráðherra líka, eins og góðum Framsóknarmanni sæmir, að svara í engu spurningunni sem ég spurði. Þess vegna ítreka ég það: Hvernig er nemendafjöldi á háskólastigi að þróast á gildistíma fjármálaáætlunarinnar?

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að þetta er gríðarlega mikilvægt. Menntun er undirstaða nýsköpunar í hagkerfinu hjá okkur og það er mjög mikilvægt að standa vel að háskólastiginu ekki síst.

Það leiðir auðvitað hugann að því og ég hef heyrt ávæning af því að hæstv. ráðherra ætli að láta leggja mat á mögulegan spekileka. Ég held að hann sé verulegt áhyggjuefni. Við sjáum að á undanförnum sex, sjö árum er nettóaðflutningur erlendra starfsmanna hingað til lands um 25.000 en nettóbrottflutningur Íslendinga á sama tíma um 10.000. Ég óttast að þar sé töluverður spekileki sem helgist m.a. af því að við höfum ekki skapað menntuðu starfsfólki nægjanleg tækifæri hér. Þar er ég reyndar sannfærður um að krónunni sé um að kenna. (Forseti hringir.) Ég veit að við hæstv. ráðherra munum örugglega verða sammála um það á endanum.