149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og nú eru það menntamálin. Samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks hefur verið fullgiltur. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu máli í sambandi við menntamálin, sem ég fór í gegnum, er hversu lítið er rætt þar um málefni fatlaðra einstaklinga. Það er eiginlega ekki neitt. Þetta hefur verið gegnumgangandi í fjármálaáætluninni. Þessi málaflokkur virðist hreinlega hafa gleymst. Þetta er mikilvægur málaflokkur vegna þess að um börn, unglinga og jafnvel fullorðið fólk er að ræða sem þarf og á rétt á menntun.

Ég spyr: Hvernig er áætlunin um aðgengi fatlaðs fólks að skólum? Aðgengi getur verið ágætt í Reykjavík en það er samt ekki gott. En ég hef enn meiri áhyggjur af aðgengi þeirra sem búa úti á landi vegna þess að þar er það enn verra. Svo er það aðgengi þessa hóps að tónlist og annarri menntun.

Síðan er eitt, það eina sem kom fram var í sambandi við námsframboð þeirra sem eru með þroskahömlun, að það sé eiginlega ekkert eftir framhaldsskóla. Ég spyr: Bíddu, hvað á að gera þar? Er eðlilegt að þar sé eiginlega hálfgerður uppgjafartónn í því, að þeir einstaklingar eigi ekki rétt á neinu meira í námi? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er staðan í þessu og hvað á að gera?