149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna, hún er mjög brýn og skiptir máli. Ég vil fyrst nefna það að við höfum verið að framfylgja stefnu sem heitir Menntun fyrir alla, menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastiginu. Það hefur verið leiðarljósið og verður áfram leiðarljósið í menntastefnunni sem við erum að móta til ársins 2030. Það skiptir auðvitað miklu máli að aðgengismál séu í lagi. Ég verð að segja hv. þingmanni að ég gef mér að þau séu í lagi. Ég tek vissulega undir að ef þau eru það ekki þá vil ég fá mjög greinargóðar athugasemdir hvað það varðar. Því að við höfum verið að framfylgja þessari stefnu núna í nokkuð langan tíma.

Varðandi það hvaða möguleikar eru í boði fyrir fatlaða einstaklinga eftir framhaldsskólastigið vil ég geta þess að við settum á laggirnar starfshóp til að meta akkúrat þetta. Ég er algjörlega sammála því að það gengur ekki að eftir framhaldsskólann séu svona fáir möguleikar í boði. Annað sem við erum líka að gera, við viljum tryggja aukna möguleika á vinnumarkaðnum og mennta- og menningarmálaráðuneytið er að vinna með Vinnumálastofnun í því. Vegna þess að það er sannarlega eftirspurn eftir þessum starfskröftum. Vinnumálastofnun hefur verið að gera mjög góða hluti hvað það varðar.

Ég vil líka nefna að við lítum til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og markmið númer fjögur er: Menntun fyrir alla. Auðvitað á þetta að passa saman við þær skuldbindingar sem við höfum tekið og höfum samþykkt, bæði alþjóðlega og hér innan lands. Ég fagna því bara að hv. þingmaður nefnir þetta og nefnir að hvergi sé minnst á þetta í ríkisfjármálaáætluninni vegna þess að ég gef mér að aðgengismálin séu í lagi, en tek á móti athugasemdum ef svo er ekki.