149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á málefnasviðinu réttindi einstaklinga, trúmál, stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins, dómstólar og almanna- og réttaröryggi, en þau tvö síðastnefndu heyra að litlum hluta undir forsætisráðuneytið sömuleiðis.

Stefnt er að því að verja samtals 243 milljörðum kr. á áætlunartímabilinu til þessara málaflokka, en það er aukning um tæpa 1,7 milljarða kr. frá fjárlögum ársins 2019, eða sem nemur 3,5%. Heildarútgjöld málefnasviðsins almanna- og réttaröryggi lækka um 700 millj. kr. á tímabilinu og haldast nokkuð óbreytt frá gildandi fjármálaáætlun 2019–2023. Framlög í ný verkefni nema um 1,8 milljörðum kr. á áætlunartímabilinu en á sama tíma nemur aðhaldskrafa til málefnasviðsins 1,9 milljörðum kr. á tímabilinu.

Löggæslan hefur verið efld til muna á síðustu árum eða sem nemur 6,3 milljörðum kr. á árunum 2014–2019 á verðlagi hvers árs. Í fjárlögum fyrir árið 2019 var löggæslan efld sem nam 410 millj. kr. til að bregðast við auknu álagi þar vegna fjölgunar ferðamanna, 80 millj. kr. til að efla aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, 29 millj. kr. til að efla aðgerðir gegn peningaþvætti og 20 millj. kr. til innleiðingar löggæsluáætlunar sem kynnt verður á næstu vikum og mun gera kostnað við löggæslu gagnsærri en áður og fjárveitingar til hennar byggðar á faglegum grunni.

Þá hafa einnig verið aukin verulega fjárframlög til lögreglu og ákæruvalds vegna aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu með 15 nýjum stöðugildum, uppfærslu rannsóknarbúnaðar, upplýsingakerfi innan réttarvörslukerfisins o.fl. Áfram verður unnið að eflingu löggæslunnar í samræmi við áherslur stjórnarsáttmála og ráðherra.

Fjárframlög vegna skuldbindinga íslenskra stjórnvalda við landamæravörslu á grundvelli Schengen-samstarfsins hafa þegar verið aukin varanlega um 614 millj. kr., auk 223 millj. kr. tímabundins framlags til endurnýjunar á búnaði og upplýsingakerfum.

Þegar hafa 14 milljarðar kr. verið tryggðir til þyrlukaupa hjá Landhelgisgæslunni en útboð fer fram á þessu ári. Þá hefur þyrluáhöfnum verið fjölgað úr fimm í sex frá og með miðju þessu ári og stefnt er að fjölgun þyrluáhafna úr sex í sjö á næstu árum ásamt nauðsynlegum endurbótum á flugskýli Gæslunnar. Þá verður einnig stefnt að því að koma flugvélinni TF-Sif í fullan rekstur innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Í ár voru framlög aukin til Fangelsismálastofnunar um 50 millj. kr. sem varið verður í félags- og sálfræðiráðgjöf með það að markmiði að dómþolar aðlagist betur samfélaginu eftir að fangelsisvist lýkur. Einnig er unnið að bættri geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum í samvinnu við heilbrigðisráðherra sem ber ábyrgð á því að framfylgja lögum um heilbrigðisþjónustu en samkvæmt lögum skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir.

Þá hefur ráðuneytið unnið með mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Fangelsismálastofnun að stefnumótun um nám fanga en áskorun hefur verið um að skipuleggja umgjörð og innihald námstilboða sem henta. Heildargjöld málefnasviðsins, réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins hækka á áætlunartímabilinu um 2,5 milljarða kr., að teknu tilliti til aðhaldskröfu sem nemur samtals 1,2 milljörðum.

Meginbreyting á útgjöldum málefnasviðsins á áætlunartímabilinu frá fjárlögum 2019 snýr að varanlegu framlagi til þjóðkirkjunnar til að efna kirkjujarðasamkomulagið svokallaða sem nemur 857 millj. kr. Framlög til lögbundinna kosninga hækka að meðaltali um 250 milljónir á tímabilinu. Þá er varanlegu 80 millj. kr. framlagi varið til Útlendingastofnunar til fjölgunar starfsmanna með það að markmiði að stytta málsmeðferðartíma og þann tíma sem umsækjendur dvelja í þjónustu stofnunarinnar og sveitarfélaga á meðan umsókn er afgreidd. Hluti framlagsins fer einnig í þarfagreiningu og endurnýjun á upplýsingakerfum.

Þótt áfram ríki óvissa um fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur mikill árangur náðst í að fækka tilhæfulausum umsóknum síðastliðin tvö ár og hraða brottför þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi að tilhæfulausu. Árið 2017 voru 52% umsókna frá einstaklingum sem komu frá öruggum upprunaríkjum en aðeins um 24% árið 2018. Á sama tíma hefur umsóknum frá ríkisborgurum annarra ríkja hins vegar fjölgað en þær voru 436 árið 2016 en 607 árið 2018. Þær umsóknir taka, eðli máls samkvæmt, lengri tíma í afgreiðslu þar sem þær kalla á umfangsmeiri og tímafrekari rannsókn og umsækjandi er þar af leiðandi lengur í þjónustu. Umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur því fjölgað á nýjan leik. Í dag er um 640 einstaklingar í þjónustu en til samanburðar voru 742 í lok árs 2016 þegar fordæmalaus fjöldi fólks sótti um alþjóðlega vernd. Hér er verið að leita að möguleikum til hagræðingar á sama tíma og leitað er leiða til að auka sveigjanleika þegar kemur að fjármögnun. Þá er unnið að breytingum á lögum og reglum svo auka megi skilvirkni í málaflokknum en skilvirkni verndarkerfisins er öllum umsækjendum til bóta.

Starfsemi Persónuverndar hefur verið styrkt á umliðnum árum með allt að þreföldun (Forseti hringir.) á framlögum og verður áfram lögð áhersla á að mæta löggjöfinni og takast á við aukinn málafjölda. Engin aðhaldskrafa er á málefnasviðinu dómstólar og þá er áhersla lögð á að halda málsmeðferðartíma innan þeirra viðmiða sem sett hafa verið.