149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Upplýst var á fundi fjárlaganefndar fyrir skemmstu að rauð ljós logi í dómsmálaráðuneytinu í málaflokknum hælisleitendur. Þessi málaflokkur er þannig vaxinn að gera þarf ráð fyrir sveiflum og ófyrirsjáanleika í útgjöldum sem ráðast verulega af fjölda umsókna hverju sinni en ekki síður fjölda einstaklinga í þjónustu, eins og það heitir, sem er sá þáttur sem hefur mest áhrif á útgjöld fjárlagaliðarins eftir því sem fram kemur í skýringum með fjármálaáætlun.

Fyrir skömmu upplýstu fulltrúar dómsmálaráðuneytisins á fundi fjárlaganefndar að hugsanlega þyrfti málaflokkurinn aukafjárveitingu upp á 2 milljarða kr. og væri þá heildarfjárþörfin komin upp í tæpa 5 milljarða fyrir þetta ár. Þetta eru háar fjárhæðir og mikill útgjaldavöxtur ef hann raungerist. Hlutfallslega næmi hann tæpum 75% og mætti þá segja að liðurinn væri kominn úr böndum.

Í fjármálaáætlun segir, og sömuleiðis lét hæstv. ráðherra falla orð um það áðan, að unnið sé að ýmsum breytingum svo auka megi skilvirkni og aðra slíka þætti. Í fimm ára áætlun sem þessari, sem við ræðum nú, er eðlilegt að tímasetningar séu tilgreindar, hvenær sé stefnt að því að ráðist verði í fyrirhugaðar breytingar, þar á meðal á regluverkinu. Getur hæstv. ráðherra upplýst um tímasetningar í þessu efni og hvaða árangri vænst sé að umræddar breytingar muni skila?