149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að fjárlaganefnd hefur fjallað um þessi mál og ljóst er að ef ekkert verður að gert fer kostnaður fram úr áætlunum. Þá hefur ráðuneytið ákveðnum skyldum að gegna samkvæmt lögum um opinber fjármál og nú þegar er vinna í gangi á milli ráðuneytisins og Útlendingastofnunar um mögulegar leiðir. Við erum sömuleiðis með í smíðum frumvarp til breytinga á útlendingalögum sem að hluta til er til að mæta þessu, þ.e. skilvirkari málsmeðferð kallar á minni fjárhæðir.

Sú vinna er mjög langt komin og ég vonast til að koma með það frumvarp fyrir tilskilinn frest, þ.e. ef hægt er að útbýta hér rafrænt fyrir frestinn. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvaða atriði eru þar inni, það er enn í vinnslu, en þar eru tillögur sem fela í sér skilvirkari málsmeðferð án þess að nokkru leyti að ógna öryggi eða skoða ekki mál með þeim hætti sem þarf að gera til að vera viss um að málsmeðferðin sé samkvæmt öllum lögum og reglum. Það gæti minnkað þessa fjárhæð töluvert.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni, og kom inn á það í ræðu minni, að sveigjanleiki kerfisins þarf einfaldlega að vera meiri. Samtal er líka við fjármálaráðuneytið vegna þess að við getum ekki verið svo stíf þegar kemur að fjármögnun, t.d. starfsmanna hjá Útlendingastofnun sem eru að vinna í málunum, vegna þess að kostnaðurinn endar þá á öðrum stað, þ.e. þegar kemur að þjónustunni. Þar er hann hærri og allir eru sammála um og allir vita að liggi þessi mál lengi er það engum til góða og allra síst þeim sem eru að sækja um.