149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir yfirferð hennar í dag. Henni er nokkur vorkunn, enda hefur margsinnis komið fram í máli hennar að undanförnu að hún sé tímabundið í þessu embætti og beri þannig hvorki ábyrgð á fortíð né framtíð þegar kemur að fjármálaáætlun þessa málaflokks.

En við erum hér til að ræða málaflokk hæstv. dómsmálaráðherra og mig langar að ræða þá stofnun sem tengist svolítið veru hennar í þessu embætti, nefnilega Landsrétt. Nú er það svo að réttlát málsmeðferð gengur ekki eingöngu út á að fá að reka mál sitt fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli heldur gengur réttlát málsmeðferð einnig út á að mál hljóti afgreiðslu á eðlilegum og sanngjörnum hraða. Dómarar í Landsrétti eiga samkvæmt dómstólalögum að vera 15 og er það nefnt í fjármálaáætlun að helsta áskorun þessa áfrýjunardómstóls sé að þróa starfsemi nýs réttar og þjálfa starfsmenn, samhliða því að halda málsmeðferðartíma innan þeirra viðmiða sem sett hafa verið.

Þar sem fyrirséð er að málahali hefur nú þegar myndast í dómstólnum þar sem eingöngu 11 dómarar eru starfandi — og verða þeir 10 frá komandi hausti — vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé nauðsynlegt í meðförum þings að auka verulega við framlag ríkisins til dómstólsins til að tryggja réttláta málsmeðferð. Ekkert er rætt um núverandi ástand í áætluninni, sem þó kom bara núna um helgina, og því ljóst að ekki er gert ráð fyrir neinu viðbótarframlagi til Landsréttar vegna dómarafjarveru.