149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt að ég var ekki í embætti dómsmálaráðherra þegar áætlunin var unnin og textasmíð og allur sá aðdragandi sem tekur töluverðan tíma. Ég hef líka sagt að ég sé hér tímabundið, en á meðan ég dómsmálaráðherra ber ég ábyrgð á öllu því sem snýr að því embætti og þar með talið þessum textum og tillögum sem eru í fjármálaáætluninni.

Hvað varðar Landsrétt er alveg rétt að það eru ellefu dómarar sem dæma í málum, hinir fjórir mæta til vinnu en dæma ekki í málum. Á þessu stigi er það einfaldlega þannig að ég er ekki tilbúin til að svara því hvort, hvernig og hvenær einhverjar breytingar verða gerðar hér á. Það er vika liðin frá því að ég settist í þennan stól og ég hef nýtt tímann vel, en ég get samt ekki sagt nákvæmlega til um hvað verður gert, hvenær það verður gert og hvernig.

Það er alveg rétt að fjármálaáætlunin tekur ekki mið af þeirri stöðu. Það er þá sérákvörðun að taka og við þurfum einhvern veginn að ráða fram úr því.

Til að árétta það er Landsréttur starfhæfur og er að dæma og það eru ellefu dómarar þar að störfum. Á þessum tíma er kannski ekki hægt að segja að það séu fjöldamörg mál og allt í uppnámi, þrátt fyrir að þetta sé ekki viðunandi staða og við getum ekki horft upp á hana til framtíðar.