149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er af ýmsu að taka þegar kemur að málaflokki hæstv. dómsmálaráðherra og þá þarf maður að velja eitthvað úr. Mig langar, líkt og aðrir hafa komið inn á í spurningum sínum til hæstv. ráðherra, að staldra aðeins við útlendingamálin. Ég vil byrja á því að segja að ég fagna því að verið sé að koma auknu fjármagni til Útlendingastofnunar til að hægt sé að ráða inn fleira fólk. Ég held að það veiti ekkert af. En mig langar jafnframt að taka það fram að mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga að það sé einmitt til þess að hægt sé að vinna málin ekki bara hratt heldur líka vel; að horfa til mannúðar og þess að tryggja sem best öryggi þeirra sem hingað koma.

En líkt og kemur fram í texta fjármálaáætlunarinnar hafa verið sveiflur í því hversu mikið af fólki hefur komið hingað og eins í því hvaðan fólk kemur. Þess vegna er það kannski með ólíkar þarfir. Mig langar aðeins að heyra í hæstv. ráðherra, hvort hann telji að við þurfum að búa til enn meiri sveigjanleika í þetta kerfi. Því miður held ég að það sé alveg ljóst að vegna ástands mála í heiminum, vegna breytinga sem eru að verða, t.d. vegna loftslagsmálanna, munum við áfram sjá að hingað mun koma fólk og jafnvel fólk úr allt öðrum aðstæðum en nú er. Hvernig er hægt að reyna að bregðast við þessu, einmitt í áætlunum eins og þeirri sem við erum að ræða hér í kvöld?