149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það eru miklar sveiflur í kerfinu, málafjöldi fer upp og niður — meira upp samt — og þessir hópar breytast líka frá mánuði til mánaðar eða frá einum tíma til annars. Þarfir eru mjög mismunandi og það kallar á mismunandi málsmeðferð, mismiklar kröfur og það kallar á mismikinn tíma til að fara yfir mál og mismunandi þjónustu við fólk sömuleiðis. Ég er þannig algjörlega á því að meiri sveigjanleika þurfi í kerfið, að ráðuneytið og þær stofnanir sem með þessi mál fara hafi meira svigrúm til að bregðast við og geti þá lagt mismikinn þunga í afgreiðslu mála, eða mismikla fjármuni á móti í þjónustu og þarf þá að huga að því hvernig þjónustu eigi að veita.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við sjáum ekki fram á að lönd leggi niður hæliskerfi. Það mun reyna mjög verulega á þessi kerfi næstu ár. En við þurfum þá líka að hugsa út fyrir kassann og reyna að finna aðrar leiðir sem einfaldlega auðvelda fólki að flytja milli landa. Mér finnst við stundum, í umræðu um þessi mál, vera að blanda saman kerfum eða leiðum. Mér finnst við of stíf þegar kemur að því að heimila fólki að koma hingað og þreifa fyrir sér og leita tækifæra, en það er ekki hægt að nota hæliskerfið í það. Út á það gengur þetta allt saman.

Þegar við erum að fjalla um hæliskerfið og alþjóðlega vernd og annað slíkt þá er það í ákveðnum tilgangi. Það er fyrir fólk sem er í lífshættu, er ofsótt. En fólk í leit að betra lífi, sem ég held að allir í þessum sal myndu líka gera ef aðstæður væru þannig — við þurfum þá að vera með kerfi til að taka á móti því svoleiðis. Hæliskerfið er ekki svarið í því.