149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og get alveg tekið undir það að hæliskerfið er auðvitað sett upp í ákveðnum tilgangi. En við búum á sama tíma við það að landið er mjög lokað fyrir þá sem koma hingað utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Það hefur áhrif á stöðu þeirra sem koma frá fjarlægari löndum. Þetta þarf að skoða allt í samhengi og ég vona að hæstv. ráðherra taki það með í reikninginn í áframhaldandi vinnu í hennar ráðuneyti.

Mig langar að nota síðustu spurninguna aðeins til þess að spyrja út í löggæslumálin. Það kemur nefnilega fram hér í töflu á bls. 231 að setja eigi peninga í bættan búnað lögreglu, varnar- og öryggisbúnað vegna hryðjuverka og stórfelldra (Forseti hringir.) ofbeldisbrota, og líka almennan búnað vegna löggæslustarfa. Hvað er hér um að ræða? Hvers konar búnað erum við að ræða um?