149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Verkefnið, markmiðin og aðgerðir í fjármálaáætlun eru nákvæmlega þau sömu eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og fyrir hann. Verkefnið um að tryggja traust á dómstólum hvarf ekki við niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Það varð mögulega stærra og hugsanlega þurfum við að hafa meira fyrir því að efla traust á dómstólum en markmiðin eru nákvæmlega þau sömu þrátt fyrir það.

Ástæðan fyrir því að ekki er komið inn á þessa niðurstöðu og sérstakar ákvarðanir henni tengdar er að það var einfaldlega orðið of seint. Þetta tekur allt sinn tíma. Það þarf að skila inn textum og töflum og skjölum og öllu saman til fjármálaráðuneytisins, sem þarf að samræma það síðan í þessu mörg hundruð blaðsíðna skjali, samræma á milli kafla, milli ráðuneyta og í sínum stóru töflum, og svo tekur tíma að fara með það í prentun. Það er einfalda svarið. Það eru bara praktískar ástæður fyrir því. Það var orðið of seint.

Hér er spurt um afneitun á raunveruleikanum og ég kannast með engum hætti við þá afneitun.