149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Samt dreg ég í efa að markmiðin og lausnirnar séu nákvæmlega þau sömu eftir dóm Mannréttindadómstólsins. Einu lausnirnar sem ég sé í því að efla traust til dómstóla í þessari áætlun eru rafrænar lausnir. Nú er ég sem Pírati náttúrlega alltaf mjög ánægð með rafrænar lausnir og rafræna stjórnsýslu, en ég fæ ekki séð að aukið flæði rafrænna skjala á milli dómstóla, betra skráningarkerfi og betra upplýsingatæknikerfi fyrir dómstólana sé liður í því að efla traust til dómstólanna eftir þennan dóm. Það eru einu aðgerðirnar, virkilega, og einu áskoranirnar sem ég sé í þessari áætlun. Samtenging upplýsingakerfa og að samræming náist við birtingu dóma á vef á öllum dómstólum. Allt þetta á að gera til að efla traust á dómstólum. Það er gott og gilt í sjálfu sér en getur ekki talist rétt markmið til að vinna aftur traust í kjölfar Landsréttardómsins.