149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg rétt, þessar aðgerðir eru vissulega liður í því. Ég átti ekki við að verkefnið væri nákvæmlega það sama, væri með sama sniði með sömu áskorunum, en markmiðin eru þau sömu fyrir dóm og eftir dóm.

Vegna hinnar spurningarinnar sem hv. þingmaður kom inn á áðan og ég gleymdi að svara, af hverju það hefði ekki verið tilgreint sérstaklega hvað ætti að gera, þá vil ég segja að burt séð frá praktískum ástæðum, samræmingu og prentun og öðru slíku þá hefðum við samt ekki náð því tímans vegna að setja eitthvað slíkt inn vegna þess að við erum enn þá að vinna í því að kortleggja, vega og meta hvaða ákvarðanir eigi að taka næst. Það er sú vinna sem er í gangi. Málið er auðvitað öðruvísi nú en áður. En markmiðin eru þau sömu. Ég ítreka það að ástæðan fyrir því að ekkert er komið inn á aðrar aðgerðir sem mögulega koma í framhaldinu er sú að ákvarðanir um þær hafa ekki verið teknar og ekki gafst tími til að ávarpa það sérstaklega í áætluninni.