149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:01]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra yfirferðina í málaflokki almanna- og réttaröryggis. Þar sem ég ætla að bera niður tengist landhelgisgæslu, þyrlum og löggæslu. Það er ánægjulegt að sjá í þessari áætlun fram á að við höfum þrjár þyrlur tiltækar, einnig að það sé fullfjármagnað hvað varðar hina sjöttu áhöfn og stefnt sé á sjöundu áhöfnina. Fyrst þyrlurnar eru orðnar þrjár hefði ég talið eðlilegt að við færum að dreifa þeim eitthvað um landið og settum kannski eina norður, en ég á ekki von á því að það sé þannig.

Hvað varðar þyrlur og varðskip og þess háttar þá kemur það einnig fram í þessari áætlun hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vera með öfluga landhelgisgæslu. Hafsvæðið okkar er stórt. Við lifum einnig á fiskveiðum og skipaumferð á okkar svæði er gríðarlega mikil þannig að við þurfum að hafa öryggi fyrir hendi.

Þar sem mig langar einnig að fá að vita í þessari lotu varðar löggæsluna. Talað er um innleiðingu á löggæsluáætlun. Hvar stendur hún? Er hún fjármögnuð o.s.frv.?