149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Mig langar til að gera fyrst og fremst að umtalsefni fullnustumál, fangelsismál. Í fyrsta lagi vekur örlitla athygli mína að í markmiðssetningunni er ekki talað mikið um betrun fanga og eiginlega kemur mér það nokkuð á óvart. Að vísu er talað um að stuðla að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu. Það getur vel verið að í því felist þá um leið einhvers konar betrun. Þetta vekur athygli mína.

Það sem vekur líka athygli mína, og ég myndi gjarnan vilja heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við, er að þegar talað er um mælikvarða á árangri sé ég hvergi að einhver mælikvarði á árangur sé hvernig föngum tekst að fóta sig í samfélaginu, sem hlýtur að vera býsna mikilvægur mælikvarði.

Síðan vil ég gjarnan fá að spyrja hæstv. ráðherra um heilbrigðismál fanga, þ.e. út í sálfræðiþjónustu, geðlæknisþjónustu, en kannski ekki síst það að nú er staðreynd að í fangelsum er fólk sem er veikt og á ekki heima í fangelsi (Forseti hringir.) heldur á annars konar stofnunum, heilbrigðisstofnunum. Eru einhverjar fréttir af þeim málum?