149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Auðvitað er frumskylda Fangelsismálastofnunar að tryggja að hún geti sinnt störfum sínum út frá mannafla og öðru en ég myndi segja að betrun væri hitt atriðið sem skipti hvað mestu máli fyrir fanga sem afplána í fangelsum og sömuleiðis okkur sem samfélag, að auka líkur á því að þeir einstaklingar fóti sig að nýju þegar afplánun lýkur.

Einn mælikvarði er endurkomutíðni sem er núna 20% þegar skoðað er hve hátt hlutfall er komið með óskilorðsbundna dóma innan tveggja ára. Með auknu fjármagni í félags- og sálfræðiráðgjöf eru meiri líkur á að dómþolar aðlagist betur samfélaginu eftir að fangelsisvist lýkur og ítrekun brota dragist þannig saman. Hluti af betrun er auðvitað sálfræðiþjónustan, tækifæri til menntunar, sú vinna sem fangar hafa getað innt af hendi. Þetta er allt hluti af því að við gerum betur.

Hvað varðar t.d. heilbrigðisþjónustu innan fangelsa var það a.m.k. þannig, og ég geri ráð fyrir að það sé enn þá, að þetta snýst ekki alltaf um fjármagnið heldur er erfitt að manna þessar stöður. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Þetta eru mjög krefjandi aðstæður þannig að við þurfum að gera betur í því. En það er nauðsynlegt að geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum verði bætt og alveg ljóst að henni hefur verið ábótavant á síðastliðnum árum og er enginn geðlæknir starfandi í fangelsum landsins. Ég held að langflestir átti sig alveg á því og viti hvað þarf að gera en það virðist vera þyngra að láta það verða að veruleika.