149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Svarið við því er já, ég mun reyna að beita mér fyrir því og ræddi það síðast á fundi í ráðuneytinu í gær þar sem ákveðin vinna er í gangi. Þetta kallar á náið og þétt samstarf félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Það sem er oft erfitt við svona mál — sem er engin afsökun en stundum skýring á því þegar hlutirnir taka tíma — er að ábyrgðin er á fleiri en einum stað. Í þessu tilviki, sem betur fer mætti segja, eru þetta ótrúlega fáir einstaklingar en það sem er erfitt þegar þeir eru fáir er að vera með fyrirkomulag sem er varanlegt og alltaf til staðar, því að stundum er bara enginn í slíku úrræði. Verkefnið er samt klárlega til staðar og við þurfum að vera með lausn sem er varanleg og hægt er að grípa til þegar svo ber undir. Slík mál eru ótrúlega viðkvæm og flókin en líka ótrúlega mikilvægt að leysa þau því að þetta er oft og tíðum okkar veikasta fólk og okkur ber skylda til að sinna því verkefni af alvöru.