149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir innlegg sitt í umræðu um fjármálaáætlun. Málaflokkur hennar er sannarlega yfirgripsmikill og mig langar að líta til löggæslunnar að þessu sinni. Ég var að horfa á sjónvarpsfréttirnar í kvöld og sá að lögreglan er að þjálfa fíkniefnahunda. Þeir hundar sem fyrir eru eru orðnir gamlir og lúnir og fara sennilega í frí hvað úr hverju.

Eins og alþjóð veit ríkir gríðarlegt böl vegna flæðis fíkniefna inn til landsins og náttúrlega vegna efna sem eru framleidd hér heima. Það hefur sýnt sig og sannað að þeir aðstoðarmenn sem hundarnir eru eða sú aðstoð sem þeir veita lögreglunni heftur oft skipt sköpum í slíkum málum. Við vitum að lögregluliðið okkar er of fámennt og hefur verið talið að vanti allt að 200 lögreglumenn í raðir þeirra til þess að þeir geti sinnt því eftirliti og öryggi sem þeir vildu gjarnan sinna.

Sá efniviður sem hundarnir sem við sáum í fréttunum virðast vera er mjög góður og tilefni til mikillar bjartsýni. Það er mikill kostnaður að baki og tekur gríðarlega langan tíma að þjálfa fíkniefnahunda en við vitum hvað þeir geta gert mikið gagn. Mín spurning er hvort það hafi komið inn á borð hæstv. dómsmálaráðherra að fylgja því verkefni eitthvað frekar eftir þannig að við getum verið nokkuð trygg með að nýir hundar komi í stað þeirra sem láta af störfum fljótlega vegna aldurs.