149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætla að bregða mér í sömu spor og margir aðrir hér á undan mér og ræða um löggæsluna.

Ég hjó eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra sagði í upphafskynningu sinni að lögreglan hefði verið efld og vil ég fagna því sérstaklega með hæstv. ráðherra. En ég vil benda jafnframt á að nefnd á vegum þáverandi innanríkisráðherra skilaði niðurstöðum 2013 um eflingu löggæslunnar, gerð löggæsluáætlunar og skilgreiningar á hlutverki löggæslunnar sem slíkrar. Þar kom fram, eins og margoft hefur komið fram, að fjölga þyrfti löggæslumönnum um 236 á þeim tíma. Síðan þá hefur íbúum landsins stórfjölgað og fjöldi ferðamanna náttúrlega margfaldast.

Í svari dómsmálaráðherra í fyrra við skriflegri fyrirspurn minni í þinginu kom fram að lögreglumönnum hefði fækkað frá þessu viðmiðunarári 2012, úr 656 í 636 í fyrra, 2018. Þeim hefði sem sagt fækkað á þessu tímabili um 20 en fyrir sex árum var nauðsynlegt að fjölga um 236. Það er langur vegur frá þeim 236 lögreglumönnum sem þurfti að fjölga um á þessum tíma. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar kemur þessi efling löggæslunnar fram ef hún sést ekki í fjölda lögreglumanna?