149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Þessi umræða er auðvitað mjög kunnugleg. En löggæslan hefur verið efld til muna á síðustu árum. Það nemur 6,3 milljörðum kr. á árinu 2014–2019 á verðlagi hvers árs. Það eru töluverðir fjármunir á ekki lengri tíma. Allt mjög mikilvægt og aldeilis verk að vinna eftir niðurskurð eftir hrun.

Við greiningu á mannaflaþörf er einfaldlega ekki nóg að skoða þann fjölda lögreglumanna sem verið hefur hjá lögregluliðum fram til þessa. Löggæsluþörfin hefur breyst frá því sem var fyrr á tíð. Hugmyndafræði varðandi mönnun lögregluembætta byggist í grunninn á markmiðum varðandi neyðarútkallsþjónustu, afbrotavarnir og rannsóknir. Það verður líka að hafa í huga að á undanförnum árum hefur starfsmönnum lögreglu fjölgað, starfsmönnum sem eru ekki lögreglumenntaðir, þ.e. sérfræðingum á ýmsum sviðum sem koma að rannsóknum sakamála og öðru starfi lögreglu. Það er þróun sem við horfum einfaldlega á til framtíðar. Þess vegna er ekki nóg að horfa eingöngu á fjölda menntaðra lögreglumanna á götum úti vegna þess að verkefnin breytast. Með löggæsluáætlun núna erum við að greina almennilega hver þörfin er og hvar hún er helst og við látum fjármagnið fylgja því. Það er í mínum huga mikilvægara að vera a.m.k. með plagg sem er fjármagnað en plagg sem er alls ekki fjármagnað.

Þetta plagg, löggæsluáætlunin sem verður brátt tilbúin, mun skipta máli til framtíðar um það hvernig ákvarðanir eru teknar um forgangsröðun fjármuna, að við séum búin að greina vel hvar þörfin er helst og látum fjármagnið fylgja í þau verkefni.