149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:27]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kynninguna. Ég ætla að klappa sama stein og ýmsir hafa klappað og tala örlítið um lögregluna og löggæslumálin. Mér finnst það ekki alveg útrætt, þetta er vandamál. Ísland er í þjóðbraut og hér er mikill ferðamannastraumur sem hlýtur að kalla á aukin umsvif lögreglunnar, það segir sig sjálft að í landi þar sem eru alls konar hættur sem bíða ökumanna. Svo hefur fólk þörf fyrir löggæslu í daglegu lífi og þörf fyrir nærveru löggæslu í daglegu lífi. Það er víða um mjög langan veg að fara fyrir fólk til að kalla á lögreglu þegar eitthvað kemur upp á.

Það hlýtur að heyra til grundvallarréttinda fólks að hafa slíkan aðgang að lögreglu. Það hlýtur að vera ein af grundvallarforsendum fyrir því að byggð bjóði upp á sómasamleg kjör og öryggi að lögregla sé til staðar. Það er ekki endilega vegna þess að erfiðara sé að koma lögum yfir þá sem brjóta lögin heldur líka vegna þess að nærvera lögreglu er sjálfsagður hluti af því þjónustustigi sem sveitarfélög vilja halda uppi fyrir íbúa sína.

Mig langar að nefna eitt í viðbót. Verið er að breyta reglum um áfengismagn sem telst saknæmt í blóði hjá ökumönnum. Það eitt kallar á aukinn mannafla. Það er aukið vafstur í kringum það, án þess að séð sé að því sé mætt. Talað er um 1 milljarð í málaflokkinn á næstu fimm árum. Ríkislögreglustjóri hefur sagt í umsögn við fyrri fjármálaáætlun að til að mæta mannaflaþörf þurfi 3 milljarða. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að eiga orðastað við mig um þetta málefni.