149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi grundvallarréttindi fólks úti um land, að það viti til þess að lögreglan sé ekki of langt í burtu. Við vitum alveg að það eru svæði á landinu sem uppfylla þetta ekki eins og við myndum vilja. Ég get ekki annað en verið sammála hv. þingmanni um það. Þetta er eilíft verkefni og eilíft hagsmunamat og alltaf spurning um forgangsröðun.

En lágmarksviðvera eða tíminn sem það tekur fyrir lögregluna að koma á staðinn er auðvitað hlutur sem skiptir fólk miklu máli og maður finnur mikið fyrir þegar maður fer um landið, t.d. í mínu kjördæmi. Fólk þarf að finna fyrir öryggi hvað það snertir.

Hlutverk lögreglu hefur breyst mjög og aukist með öllum þessum fjölda ferðamanna. Í fjárlögum síðasta árs settum við 410 milljónir til að bregðast við auknu álagi á löggæslunni vegna fjölgunar ferðamanna. Ef maður tekur ferðaþjónustuna og ferðamenn eru líka ákveðin svæði þar sem ekki eru margir búsettir og þyrfti þess vegna ekki endilega að vera með viðveru þar en vegna fjölda ferðamanna á svæðinu er það þarft. Þetta sýnir enn og aftur hvað ferðaþjónustan fer um alla kima samfélagsins. Öll áætlunargerð, ákvarðanir og forgangsröðun fjármuna þarf í dag að taka mið af ferðaþjónustu í meira mæli en þurfti. Það er allt frá heilbrigðisþjónustu, í fráveitu, í niðurgreiðslu húshitunar, í löggæslu og allt þar á milli.

Við sjáum þess merki að fleiri hafa verið teknir fyrir umferðarlagabrot vegna sýnileika lögreglunnar. Það er hægt að rekja beint til frumkvæðisathugana lögreglunnar, (Forseti hringir.) þannig að við vitum alveg að það virkar.