149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Rætt er nokkuð mikið um löggæsluáætlun í fjármálaáætluninni og hún var rædd líka rétt áðan við hæstv. ráðherra. Mér heyrðist hæstv. ráðherra tala um að þessi löggæsluáætlun væri tæki til að meta fjárþörf og til að úthluta fjármunum til þeirra þátta eða anga löggæslunnar sem á þeim þurfa að halda.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort löggæsluáætlunin verður þá ekki örugglega fullfjármögnuð, þ.e. þegar kostnaðarmat liggur fyrir. Ég fæ ekki séð í fjármálaáætluninni hvort það standi til, en án fjármagns er löggæsluáætlun ekkert merkilegri en jólagjafalisti. Það væri forvitnilegt að heyra hvort ekki verði gerð ítarlegri grein fyrir fjármögnun lögregluembættanna en hingað til hefur verið gert og þar með t.d. tekinn fyrir sá möguleiki að ríkislögreglustjóri geti fjármagnað starfsemi sína að hluta með fjárframlögum annarra embætta í formi bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.

En í lokin verð ég að benda á eitt undarlegasta viðmið þessarar fjármálaáætlunar en það er á blaðsíðu 230. Þar segir, með leyfi forseta:

„Viðbragðstími lögreglu verði innan við 10 mínútur í forgangsflokki F1 og F2 að meðaltali innan hvers umdæmis. Útkallsökutæki er laust og mannað til að sinna útkalli í 90% tilvika í forgangsflokkum F1 og F2 og í 70% tilvika í forgangsflokkum F3 og F4.“

Finnst hæstv. dómsmálaráðherra það virkilega ásættanlegt að við tíunda hvert bílslys, tíundu hverja alvarlega líkamsárás eða tíunda hvert heimilisofbeldismál sé ekki laust ökutæki og mannafli til að sinna jafn alvarlegum verkefnum?